144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:23]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Vissulega er það ánægjulegt að hér eru lagðar 300 milljónir í fjarskiptasjóð sem er fyrsti áfangi í framkvæmd með fjarskiptaáætlun. Ég er þó svolítið efins um að þetta dugi til dæmis til þess að hringtengja ljósleiðarann á Vestfjörðum en það sýndi sig á þessu ári, þar sem allt var sambandslaust í marga klukkutíma, hve slæmt ástandið er víða. Ég treysti því að menn vilji leggja áfram fjármagn í þennan sjóð, því að eins og komið hefur fram er þetta mikið byggðamál og hefur verið kallað eftir því að hraða þessari tengingu eða ljósleiðaravæðingu í landinu og hef ég lagt fram tillögu þess efnis á þingi. Ég held að þingheimur allur ætti að styðja það að sett sé sem mest fjármagn í þennan lið. Þetta mun treysta byggð í landinu og auka möguleika byggðanna á að eflast og dafna.