144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá það hér að þessi tillaga sé fram komin og verði samþykkt í þingsalnum. Jafnframt er ég mjög hissa á því að hv. þingmenn Samfylkingarinnar, ásamt ýmsum öðrum, sjá sér ekki fært að styðja þetta mál. (KLM: Við viljum meira.) Við þekkjum það vel sem höfum ferðast um hinar dreifðu byggðir landsins að þetta er stærsta byggðamálið sem liggur fyrir okkur að bæta úr. Við þekkjum það að hafa heimsótt fjölskyldur sem eiga við þann vanda að stríða að börn þeirra sem stunda framhaldsnám eða háskólanám sjá sér ekki fært að koma heim um helgar vegna þess að netsambandið er of slæmt til að hægt sé að læra heima. Við þekkjum þetta og þess vegna fagna ég, það er frábært að við séum að leggja af stað í þessa vegferð. Ég fagna einkum yfirlýsingunni um það að sérstakt tillit verði tekið til Skaftárhrepps en þar hefur atvinnuástand verið erfitt. (Forseti hringir.) Ég fagna þessu og undra mig enn og aftur á afstöðu Samfylkingarinnar í málinu.