144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hvái alltaf þegar ég rek augun í þennan tiltekna lið. Mér finnst út í hött að Alþingi ræði hversu miklir peningar eigi að fara til trúarsafnaða, mér finnst út í hött að við séum með þjóðkirkju og mér finnst jarðasamkomulagið sem við vinnum hér eftir vera út í hött. Ég legg til að það verði endurskoðað svo fljótt sem auðið er. Reyndar heyri ég misvísandi sögur um lögmæti þess samnings en það er annarra að meta það en mitt. Mér finnst alltaf vera tilefni til þess að nefna að það er ekki við hæfi að ríkið innheimti sóknargjöld fyrir trúarsöfnuði. Það er ekki við hæfi að það sé þjóðkirkja til staðar eða ríkiskirkja af nokkru tagi. Það er ekki við hæfi að hið háa Alþingi og framkvæmdarvaldið sé að vasast í einhverju eins og spurningunni um guð og tilgang lífsins og eitthvað því um líkt. [Hlátur í þingsal.] Ég heyri þingmenn hlæja — með réttu.