144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við í stjórnarandstöðunni hrukkum í kút þegar við tókum saman allar hækkanirnar á kostnaðarþátttöku, uppsafnað, sem ríkisstjórnin hefur staðið að og eru fyrirhugaðar á næsta ári, þegar við sáum að talan næmi næstum því 2 milljörðum kr., 2 þús. milljónum. Þetta er gríðarleg skattaaukning á almenning sem bitnar verst á þeim sem minnst hafa milli handanna og kemur í veg fyrir að fólk geti nýtt sér grundvallarréttinn til heilbrigðisþjónustu.

Þetta kemur til viðbótar öðrum álögum. Hér áðan var stjórnarmeirihlutinn að samþykkja að fólk sem ekki hefur aflað sér framhaldsmenntunar þurfi að borga, í staðinn fyrir að borga núna 13 þús. kr. á önn, 225 þús. kr. Það eru skilaboðin til þess fólks. Venjulegt fólk í landinu ber sífellt meiri byrðar hjá þessari svokölluðu skattalækkunarríkisstjórn. Það eina sem hún kann er að leggja gjöld á almenning.