144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um breytingartillögu okkar í stjórnarandstöðunni um aukin framlög til Landspítalans. Við gerum ráð fyrir milljarðs viðbót eins og stjórnarmeirihlutinn og við gerum ráð fyrir 200 milljónum til viðbótar til að vinna á þeim biðlistum sem augljóslega þarf að vinna á á næsta ári vegna verkleysis ríkisstjórnarinnar og ráðaleysis hæstv. fjármálaráðherra í viðureigninni við læknaverkfallið. Við leggjum líka til 50 millj. kr. sérstakt framlag sem er eyrnamerkt barna- og unglingageðdeild enda brýn þörf á sérstöku átaki þar. Að síðustu leggjum við til 600 milljóna framlag til viðhalds á Landspítalanum. Ríkisstjórnin leggur ekki til eina einustu krónu til viðhaldsframkvæmda á Landspítalanum og það er ótrúlegt eftir allan fréttaflutninginn af myglusvepp og maur og allri annarri þeirri óáran sem herjað hefur á spítalann á síðustu árum.