144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil við þessa tillögu minna þingheim á að þetta er í sjálfu sér ekkert nýtt verkefni hér inni. Þingheimur samþykkti með yfirgnæfandi meiri hluta í fjárlögum þessa árs fyrsta skrefið í þá átt að fullnusta þau áform sem uppi hafa verið. Það var inni 100 millj. kr. fjárveiting á fjárlögum ársins 2014, fylgt eftir með 70 milljónum á næsta ári og svo kemur þetta sem viðbót. Þessi verk og þau skref sem stigin hafa verið af stjórnarmeirihlutanum, og nú greinilega með miklum meiri hluta þingheims, í þá átt að endurbyggja þjóðarsjúkrahúsið eru ákaflega gleðileg, bæði tvö. Þessi fjármögnun hér gerir okkur kleift að hefja hönnun á meðferðarkjarnanum alveg á fullu gasi, ljúka hönnunarvinnunni á sjúkrahótelinu og hefja framkvæmdir við það og lóðarframkvæmdir á næsta ári. Þetta verk er komið í gang, það eru ekki nein vandræði varðandi fjármögnunina svo það sé upplýst, eins og meðfylgjandi tillaga ber með sér. (Gripið fram í: Vel gert.)