144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:20]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það eru fjölmargir liðir sem hafa komið hér til afgreiðslu þar sem hefði mátt fagna því í sjálfu sér að menn séu að stíga ákveðin skref. Hér er verið að fjalla um liði varðandi heilbrigðisstofnanir almennt og úti á landi, tæki og búnað upp á 100 milljónir. Mig langar að óska eftir því og raunar treysta á að það verði lögð fram áætlun um tækjaþörf, eins og hefur verið fyrir Landspítalann, fyrir landsbyggðina alla því að þetta eru oft býsna tilviljanakennd framlög. Eins vil ég lýsa yfir áhyggjum mínum yfir því að ýmsar framkvæmdir sem voru komnar býsna langt á heilbrigðisstofnunum úti á landi, bæði á Suðurlandi og Vesturlandi, eru ekki inni í frumvarpinu. Það var búið að gera samkomulag í Stykkishólmi um að fara í framkvæmdir þar. Það er búið að reikna með því að endurbyggja deildir á sjúkrahúsinu á Akranesi, það var búið að reikna með viðbyggingu á Suðurlandi. Það er ekkert inni í þessu frumvarpi. (Gripið fram í.) Ég sit hjá einfaldlega vegna þess að mér finnst ekki nógu langt gengið á ýmsum sviðum hvað þetta varðar.