144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um tillögu stjórnarandstöðunnar um að leggja 200 milljónir í vinnumarkaðsaðgerðir. Þar sem ríkisstjórnin hefur verið að skerða fjármuni til vinnumarkaðsaðgerða og ætlar sér að stytta atvinnuleysisbótatímabilið um hálft ár, sem þýðir að 600–700 manns geta orðið atvinnulaus um áramótin og fá engar greiðslur úr atvinnuleysistryggingum, er aldrei brýnna en nú að verja fjármunum til þessara hluta. Þeim peningum er vel varið því að miklu skiptir að styðja við það fólk sem er veikast fyrir félagslega og þarf á stuðningi að halda. Síðasta ríkisstjórn lagði mjög mikið af mörkum í málaflokknum Nám er vinnandi vegur og fleiri aðgerðum sem hafa skilað sér vel. Ég trúi því að fólk (Forseti hringir.) styðji við þessa góðu tillögu.