144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér erum við að fjalla um að fallið verði frá styttingu bótatíma um sex mánuði fyrir þá sem hafa verið atvinnulausir. Þetta kom manni verulega á óvart vegna þess að það sem hefði átt að gerast af sjálfu sér er að þegar atvinnuleysi minnkar minnkar þörfin fyrir slíkar aðgerðir. Þegar menn voru að stytta þetta á sínum tíma var það meðal annars til að hrófla við og fá samstarf milli sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins til að fara í vinnumarkaðsaðgerðir til að hjálpa fólki aftur út á vinnumarkaðinn. Nú er komið að því að það er minni hópur sem þarf á þessu að halda, og það kemur manni verulega á óvart að menn skuli stíga skref í þessa átt akkúrat núna, kasta þessu í fangið á sveitarfélögunum, skerða afkomu þessa fólks, fólksins sem er búið að vera lengst atvinnulaust og á erfiðast með að komast inn á vinnumarkaðinn og þarf mest á því að halda að verulega vel sé unnið í málum þess til að tryggja að þessi hópur verði ekki öryrkjar (Forseti hringir.) til framtíðar. Það er gríðarlega mikilvægt að draga þetta til baka, þess vegna styð ég þessa tillögu.