144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:30]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Áform ríkisstjórnarinnar um að stytta bótatíma atvinnuleysisbóta eru af mörgum sjónarhóli afleit hugmynd. Hér er kostnaði velt yfir á sveitarfélögin, algjörlega án samráðs náttúrlega. Það er í algjörri mótsögn við ákvæði frumvarps og fyrirhugaðra laga, vænti ég, um meðferð opinberra fjármála þar sem segir að líta eigi á fjármál hins opinbera á heildstæðan hátt. Hér er algjörlega brotið gegn því prinsippi.

Sú röksemdafærsla heldur ekki vatni að vegna þess að atvinnuleysi hafi farið niður eigi að stytta bótatímann. Lengd bótatímans fer ekkert eftir atvinnuleysistölum þannig séð. Þessi lengd á atvinnuleysistíma sem er þrjú ár var ákveðin í blússandi góðæri og í mjög litlu atvinnuleysi. Svo er ekkert samráð við vinnumarkaðinn um þessar breytingar. Það er alvarlegt og það er algjör nýbreytni vegna þess að það hefur algjörlega einkennt þetta kerfi að (Forseti hringir.) ákvarðanir innan þess hafa verið teknar í samráði ríkisvaldsins og (Forseti hringir.) vinnumarkaðarins.