144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Nú þarf að setja 5,7 milljarða kr. í Íbúðalánasjóð vegna þess að þingmenn í þessum sal tóku einu sinni ákvörðun um það, allir á græna takkanum eins og oft. Þeir áttuðu sig ekki á um hvað þeir voru að greiða atkvæði en þeir greiddu atkvæði um að ekki mætti greiða upp lánin. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Það er bara rangt.) — Þetta kom fram í nefnd, er þetta ekki rétt? Fer ég með rangt mál? Þingmenn í þessum sal greiddu alla vega atkvæði um það, er það ekki rétt hjá mér? (Gripið fram í: Sumir.) Ég heyrði — (Gripið fram í.) já, sumir. Ókei, ég get alveg viðurkennt þegar ég hef rangt fyrir mér, en það voru greidd atkvæði um það í þessum sal að ekki mætti greiða upp lán Íbúðalánasjóðs, þessa batterís sem núna er með 13 milljarða kr. skafl, varnargarð til að verja 100–200 milljörðum kr. sem verður rúllað inn í ríkissjóð ef dómur fellur á næsta ári um að þessi sjóður hafi verið með ólögmæt lán ár eftir ár frá 2001. Þetta er nú flottur ríkisbúskapur. Þetta er ekki góður sjóður. Hann skapar líka ákveðna hagsmunaárekstra. (Forseti hringir.) Þegar ríkisvaldið sér fram á svona mikið tap (Forseti hringir.) skal það ekki fara í að standa vörð um (Forseti hringir.) réttindavernd lántakenda í þessu landi.