144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn hér á undan vekja athygli á því að við erum að tala um 2,4 milljarða sem við tökum af því rúmlega 8 milljarða svigrúmi sem bættist við milli umræðna. 2,4 milljarðar ganga beint í sjóðinn vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að flýta niðurgreiðslu á verðtryggðum húsnæðisskuldum frá því sem áður hafði verið gert ráð fyrir, eins og stendur í skýringum með tillögunni. Það stendur einnig í skýringum með þessari tillögu að mikil óvissa ríki um hvaða áhrif skuldaniðurgreiðslan hafi á stöðu Íbúðalánasjóðs og að nauðsynlegt sé að taka stöðuna aftur síðar þegar líður á árið 2015. Þann kostnað greiðum við öll en skuldaniðurgreiðslan gengur til 28% heimila. Of stór hluti þeirra er sem betur fer í góðu standi þannig að við erum líka að rétta þeim aura sem þurfa ekki (Forseti hringir.) á þeim að halda.