144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér leggur minni hlutinn til að haldið verði áfram að jafna örorkubyrði í landinu. Núverandi ríkisstjórn ætlar að skera niður framlag til jöfnunar á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða sem eru fyrst og fremst lífeyrissjóðir verkafólks og sjómanna. Við leggjum til að ekki verði af þeim skerðingum og haldið verði áfram að jafna örorkubyrði milli lífeyrissjóða. Þetta er samkomulag frá árinu 2005 milli aðila vinnumarkaðarins en þetta gengur þvert á það án nokkurs samráðs og haldið er áfram að höggva í sama knérunn í þeim efnum. Ef ákvörðun ríkisstjórnarinnar gengur eftir um að skerða þetta með því að hætta að jafna örorkubyrði milli lífeyrissjóðanna þýðir það það að þeir sem fá lífeyri úr þessum sjóðum í framtíðinni munu skerðast um 4,5%. Það munar um minna, svo að við leggjum til að þessu verði (Forseti hringir.) haldið áfram óbreytt.