144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Eftir stendur, þrátt fyrir þessa atkvæðaskýringu hæstv. félagsmálaráðherra, að ekkert samráð hefur verið haft við verkalýðshreyfinguna um breytingar á framlögum í VIRK Starfsendurhæfingarsjóð og þar með sett í hættu sú grundvallarforsenda greiðslna ríkisins þangað inn að tryggja að allir fái þjónustu óháð stéttarfélagsaðild eða aðild að lífeyrissjóðum.

Hvað varðar jöfnun lífeyrisréttinda er það samt sem áður þannig að ekki er hægt að sameina lífeyrissjóði og ætla þeim sem eru með örugg lífeyrisréttindi að greiða niður lífeyrisréttindi fyrir hina. Ríkið verður að koma að þessari jöfnun ef hún á að virka. Það er óumdeilanlegt þegar horft er á stöðu lífeyrissjóðanna að þeir lífeyrissjóðir þar sem erfiðisvinnufólk er fyrirferðarmikið meðal lífeyrisþega munu bera mun meiri örorkubyrði vegna þessarar breytingar og munu þurfa að skerða réttindi strax um næstu áramót. Enn og aftur, enginn (Forseti hringir.) aðlögunarfrestur fyrir venjulegt fólk.