144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:08]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki áttað mig á því en það sem hér er að gerast og er svona vel falið undir ófyrirséðum útgjöldum er breyting frá því sem kom fram í fjárlagafrumvarpinu um hækkun á lífeyri. Forsendur frumvarpsins voru 3,5% hækkun, síðan kemur þjóðhagsspá og þá grípa menn tækifærið og lækka í 3%. Þetta hefur verið skoðað mikið í umræðunni í sambandi við fjárlögin. Gat nú ekki ríkisstjórnin í einum einasta lið leyft öryrkjunum að fá í kringum 400 milljónir í viðbót með því að leyfa því sem stóð í fjárlagafrumvarpinu að lifa? Nei, það þurfti að taka hálfa prósentustigið af. Þetta er sama ríkisstjórn og var að monta sig af því að hafa lækkað tekjuskatt um 0,5% hjá þeim sem eru með yfir 300 þús. kr. í laun. Það snertir ekki þennan hóp heldur. Ég hefði ekki trúað því að þetta gæti gerst svona og ég hefði ekki trúað því að menn gætu lagst svona lágt að láta frumvarpið (Forseti hringir.) ekki fara í gegn með 3,5%, þar sem öryrkjarnir fengju þá örlítinn vonarpening á næsta ári.