144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Forseti. Þetta í lokin: Nýjar tölur um lítinn og lélegan hagvöxt vekja alvarlegar áhyggjur af tekjuhlið fjárlaga. 0,5% hagvöxtur er langt undir væntingum og mundi alla jafna þýða milljarðatekjutap fyrir ríkissjóð. Það er þess vegna grundvallaratriði að nefndin fari vel yfir það milli umræðna hvaða áhrif þetta hefur á afkomu ríkissjóðs. (Gripið fram í: Það er búið.) Á milli 1. og 2. umr. töldu menn að meiri tekjur væru til ráðstöfunar og það er erfitt að trúa öðru en því að spá um nærfellt 3% minni hagvöxt á fyrstu níu mánuðum ársins leiði af sér verulegt tekjutap. Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að röng skattstefna ríkisstjórnarinnar með eftirgjöf til efnafólks og hátekjufólks valdi því að sá góði hagvöxtur sem hér var í tíð síðustu ríkisstjórnar sé nú á undanhaldi eins og víða um lönd þar sem þeirri efnahagsstefnu hefur verið fylgt og OECD hefur nú nýverið hafnað sem hagstjórnaraðferð.