144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í lokin koma og þakka hv. fjárlaganefnd, meiri hluta og minni hluta, og öllum þingmönnum fyrir mikla vinnu við þessi góðu fjárlög sem við munum samþykkja til 3. umr. eftir mjög langa og stranga setu í eina sex tíma og er enn eitt Íslandsmetið sem fellur hér í dag. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að hagvöxtur sé annar en við var búist. Á fund fjárlaganefndar í morgun komu fulltrúar Hagstofunnar og skýrðu hvernig staðan er. Þær upplýsingar sem þar komu fram gefa tilefni til að ætla að við séum enn á góðu róli. Stefna ríkisstjórnarinnar hefur meðal annars skilað því að hér er mjög bjart fram undan í samfélaginu, hér er hagvöxtur, hér er minna atvinnuleysi og sú stefna sem fram kemur í þessum fjárlögum mun áfram styðja við þann vöxt. Við skulum gleðjast yfir því þó að við höfum verið með mismunandi skoðanir á einstökum málum. Þó tók ég eftir því að tillögur minni hlutans snerust flestar um það sama og meiri hlutans og voru kannski 10–30% hærri, svona yfirboð, en menn eru meira og minna sammála um leiðina sem á að fara. [Kliður í þingsal.]