144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:42]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta fyrir ákaflega skörulega stjórn á mjög löngum fundi en ég vil árétta að ástæða þessa langa fundar er ekki eingöngu á ábyrgð minni hlutans heldur er það vegna hinna fjöldamörgu breytingartillagna sem komu frá meiri hlutanum, af því að þetta var verulega gallað fjárlagafrumvarp þegar það kom inn í þing, þannig að hlutunum sé haldið til haga.

Hér var nefnt að það væri árás á hæstv. forsætisráðherra að sakna hans í þessum umræðum um fjárlögin eða atkvæðagreiðsluna. Ég vil vekja athygli á því að hæstv. forsætisráðherra var ekki viðstaddur umræður um fjárlög í þinginu, þannig að sjálfsögðu er hans saknað núna eins og þá.