144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég skal játa það að ég er líka orðinn hundþreyttur á því að ræða fjarveru hæstv. forsætisráðherra, ef ég á að segja alveg eins og er. Ég hef setið yfir þessum atkvæðagreiðslum eins og aðrir hér inni og hef tekið eftir því að hæstv. ráðherrar voru duglegir við það að útskýra atkvæði sín og ég þakka þeim fyrir það. En það er einhvern veginn skýrt munstur. Það er eiginlega alltaf næstum því þannig að hæstv. forsætisráðherra mætir ekki og deilir ekki með okkur því sem hann er að íhuga þegar kemur að fjárlögum landsins. Og það er alveg þess virði að spyrja þegar þetta skýra munstur er hvað það varðar sem menn eru sífellt að kvarta undan og stjórnarmeirihlutinn virðist einfaldlega hunsa. Ég legg til að stjórnarmeirihlutinn fari að taka þetta svolítið til sín, sérstaklega hæstv. forsætisráðherra.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.