144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

405. mál
[22:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009. Lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki voru samþykkt á Alþingi í desember 2009. Lögin fela í sér heimild til að veita nýsköpunarfyrirtækjum afslátt af tekjuskatti. Þessi afsláttur gengur þó enn lengra því að ef starfsemin er ekki farin að skila hagnaði er afslátturinn greiddur út sem beinn styrkur. Framkvæmd laganna er í höndum Rannís og ríkisskattstjóra. Rannís hefur það hlutverk að leggja mat á rannsóknar- og þróunarverkefni en ríkisskattstjóri ákvarðar skattfrádrátt við álagningu opinberra gjalda. Lögin komu fyrst til framkvæmda vegna rekstrarársins 2010 og fyrsta skattaívilnun á grundvelli laganna var ákvörðuð við álagningu opinberra gjalda á árinu 2011.

Þessi lög fela í sér stuðning við fyrirtæki sem telst ríkisaðstoð samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Lögin þurfti því á sínum tíma að tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA og fá samþykki stofnunarinnar áður en þau komu til framkvæmda. Eftirlitsstofnunin samþykkti það kerfi sem í lögunum felst til fimm ára og af þeirri ástæðu er gildistími laganna tímabundinn. Lögin hefðu að óbreyttu fallið úr gildi 31. desember á þessu ári.

Lögunum hefur fjórum sinnum verið beitt við álagningu opinberra gjalda á lögaðila. Á þessu ári fengu 107 nýsköpunarfyrirtæki skattfrádrátt á grundvelli laganna samanborið við 65 á árinu 2011. Af þessum 107 fyrirtækjum fengu 94 þeirra styrkinn greiddan út, 94 af 107. 13 þeirra fengu sem sagt frádrátt frá álögðum tekjuskatti. Samanlagt nam styrkurinn til þessara fyrirtækja tæplega 1,2 milljörðum kr.

Lögin hafa ekki sætt þeirri heildarendurskoðun sem áskilið var í lögunum sjálfum að færi fram innan tveggja ára frá gildistöku. Engu að síður er komin nokkur reynsla á framkvæmd þeirra, bæði hjá Rannís, ríkisskattstjóra og sjálfum fyrirtækjunum. Þá hefur Vísinda- og tækniráð metið það svo að rétt sé að halda áfram þeim stuðningi sem í lögunum felst.

Í sumar breyttist töluvert það EES-regluverk sem taka þarf mið af þegar lögfestar eru reglur eins og þær sem hér eru til umræðu, en 1. júlí 2014 tók gildi ný reglugerð innan EES um almenna hópundanþágu. Sú reglugerð fjallar um skilyrði þess að veita megi fyrirtækjum ríkisaðstoð á tilteknum sviðum án þess að leita þurfi eftir samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA. Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki er á meðal þess sem fallið gæti þarna undir. Það frumvarp sem hér er til umfjöllunar þarf því ekki að tilkynna til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, og fá samþykki fyrir áður en það öðlast lagagildi og kemur til framkvæmda. ESA þarf þó að fá tilkynningu um það og reglurnar verða birtar öllum á vefsíðu ESA.

Víkjum þá að efni frumvarpsins sem nú er á dagskrá. Markmið laganna um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Með frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar á þessu meginmarkmiði. Í því er lagt til að gildistími laganna um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki verði framlengdur um fimm ár. Í reynd er ekki nauðsynlegt að hafa gildistímann tímabundinn en ég tel það engu að síður æskilegt. Það tryggir að taka þarf lögin til heildarendurskoðunar þegar þau hafa gilt í tíu ár.

Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum er varða framkvæmd. Sum þessara atriða leiða beinlínis af þeim skilyrðum sem felast í nýju hópundanþágureglunum en önnur eru talin æskileg vegna þeirrar reynslu sem fengist hefur af framkvæmd undanfarinna ára. Þannig er lagt til að gildissviði laganna verði breytt á þann veg að fyrirtæki sem eiga í fjárhagsvanda geti ekki fallið undir lögin, einnig að fyrirtæki sem íslenska ríkið á útistandandi endurgreiðslukröfu á vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar geti ekki fallið undir lögin. Hvort tveggja eru skilyrði sem leiða af nýjum EES-reglum um ríkisaðstoð við fyrirtækin.

Lagt er til að frestur fyrirtækja til að sækja um staðfestingu Rannís á styrkhæfu verkefni verði lengdur um einn mánuð ár hvert. Um er að ræða tillögu frá Vísinda- og tækniráði. Einnig er lagt til að sú lágmarksfjárhæð sem umsóknarfyrirtæki þarf að verja til rannsóknar og þróunar verði hækkuð úr 1 millj. kr. í 5 millj. kr. Þessi fjárhæðarmörk hafa verið óbreytt frá árinu 2009 og rétt þykir að taka þau nú til endurskoðunar og nokkurrar hækkunar. Það er bæði vegna breytinga á verðlagi en sambærileg fjárhæð í dag, uppfærð miðað við verðlag næmi rétt um 1,5 millj. kr., en ekki síður er þetta vegna þess að reynslan sýnir að þau fyrirtæki sem ná árangri í nýsköpunarstarfi verja að jafnaði meiru en 1 milljón á ári til rannsóknar- og þróunarstarfs. Einnig eru aðrir styrkjamöguleikar í boði fyrir fyrirtæki á frumstigi í nýsköpunarstarfi.

Aðeins mjög stuttlega um þetta. Þetta hefur verið þannig í framkvæmd að sá sem ver 1 milljón í rannsóknir og þróun á ári hefur getað sótt allt að 200 þús. kr. til baka í beinan styrk eða þá í skattafslátt ef fyrirtækið er tekjuskattsgreiðandi. Það ferli sem þarf að fara í gang til að fara yfir umsóknir og samþykkja hér og hvar í kerfinu, meta hjá Rannís og eftir atvikum hjá ríkisskattstjóra, ásamt þeirri reynslu að fyrirtæki þurfa að jafnaði, ef þau ætla að ná árangri í rannsóknar- og þróunarstarfi, að verja meiru en 1 millj. kr. á ári í þau verkefni veldur því að hér er lagt til að viðmiðunin verði hækkuð upp í 5 millj. kr. á ári.

Lagt er til í frumvarpinu að ríkisskattstjóra verði heimilað að veita Rannís upplýsingar um niðurstöðu skattfrádráttar hjá einstökum umsóknarfyrirtækjum. Með því getur Rannís betur fylgst með framvindu verkefna og lagt mat á framhaldsumsóknir. Loks er ráðherra gert að útskýra nánar með reglugerð helstu hugtök laganna. Er hér fyrst og fremst um að ræða hugtökin rannsóknir, þróun, tengda aðila og styrkhæfan kostnað. Þessi hugtök verða að vera í fullu samræmi við nýja ríkisaðstoðarreglur sem ég vísaði áður til.

Nú þegar er í gildi reglugerð sem fjármálaráðherra birti um framkvæmd laganna og nauðsynlegt er að breyta henni til samræmis við breytt ríkisaðstoðarumhverfi. Vilji stendur til að setja þær fram með skýrari hætti í reglugerð en verið hefur. Þær breytingar sem felast í frumvarpinu hafa ekki bein áhrif á afkomu ríkissjóðs á árinu 2015 þar sem fyrsti skattfrádráttur á grundvelli breyttra laga mundi fyrst koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016.

Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.