144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

405. mál
[22:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Örstutt um þetta. Eins og ég vék að í framsöguræðunni þá sneri breytingin annars vegar að mati þeirra sem starfa á þessu sviði á því hversu miklu þurfi að lágmarki að verja í rannsóknir og þróun til að ná árangri til lengri tíma. Það er ekki til nein heilög tala í því efni en 1 milljón þykir vera undir þeim viðmiðunarmörkum sem menn horfa til. 1 milljón færð upp til verðlags frá þeim tíma sem lögin tóku gildi fyrst væri a.m.k. 1,5 millj. kr. í dag eða um það bil. Ég vek athygli á því að 1 milljón mundi gefa rétt á 200 þús. kr. styrk á ári eða rétt innan við 20 þús. kr. á mánuði í styrk til að efla rannsóknir og þróun. Þarna erum við að mínu mati farin að tala um fjárhæðir í styrk og stuðning sem standa varla undir því kerfi sem við erum búin að koma upp og þeim tíma og fjármunum sem þarf að verja í eftirlit og yfirferð með umsóknum á þessu sviði.

Ég vil hins vegar láta þess getið varðandi 5 millj. kr. töluna að hún er ekki heldur heilög tala og það má alveg velta því fyrir sér hvort hún ætti að vera 4 eða 7, en þessu er stillt svona fram til að gera ákveðna breytingu á þessu sem væri þá skýrt skref í þá átt að gera aðeins meiri lágmarkskröfur um heildarfjárhæð á ári.