144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

dómstólar.

419. mál
[22:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eins og með fyrra málið að það er nokkuð seint fram komið en ástæða til að sýna því skilning í ljósi þess ástands sem verið hefur í ráðuneytinu.

Ég hygg að það sé full ástæða til þess að framlengja þennan fjölda dómara í héraði, en vildi nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvort henni hafi gefist tóm til þess að fara yfir stöðu mála í Hæstarétti. Það var líka gripið til ráðstafana þar til þess að létta á álagi. Ég hygg að þar kunni einnig að þurfa að athuga betur stöðuna.

Nýr hæstv. innanríkisráðherra nefndi millidómstig. Ef í það yrði ráðist vil ég inna hana eftir því hvort það sé breyting á dómstólum í landinu sem hún telji ákjósanlega. Nú er það alveg ljóst að slík breyting verður verulega kostnaðarsöm. Jafnframt inni ég hana eftir því hvort hún telji að vilji sé til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að verja miklum auknum fjármunum til nýs stigs dómstóla sem þyrfti ef þær hugmyndir ættu að verða að veruleika.