144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

almannavarnir o.fl.

412. mál
[23:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir og sérstaklega fyrir orð hennar um það að málið þurfi í meðförum að verða þannig úr garði gert að um það geti skapast breið samstaða. Ég tek undir það og legg áherslu á að gerðar verði veigamiklar breytingar á málinu í nefnd. Þótt hér séu ýmsir ágætir hlutir á ferðinni, m.a. um viðbragðsáætlanir o.s.frv., þykir mér við fyrstu sýn eins og mörgum öðrum — enda hefur frumvarpið manna á meðal verið kallað herlögin — vera býsna opnar heimildir til framkvæmdarvaldsins um að taka yfir stjórn á hlutum. Það finnst mér, hæstv. ráðherra, ekki vera skýr löggjöf. Það hefur ekki staðið á Alþingi að koma saman og setja löggjöf á neyðarstundu, hvort sem það hefur verið vegna náttúruhamfara, efnahagsvár eða annarra hluta. Ríkisstjórn hefur á hverjum tíma fullar heimildir til að setja bráðabirgðalög ef þing getur ekki komið saman, sem síðan eru borin undir hina lýðræðislegu samkundu.

Hér virðist mér vera til allrar framtíðar verið að opna valdheimildir(Forseti hringir.) við ýmsar aðstæður fyrir framkvæmdarvaldið til að grípa til mjög alvarlegra aðgerða gagnvart stofnunum og fyrirtækjum og ég tel að það sé varhugavert.