144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

almannavarnir o.fl.

412. mál
[23:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það að þegar við stóðum frammi fyrir efnahagslegum hamförum þá brást Alþingi að sjálfsögðu sameiginlega við á þeim örlagaríku dögum haustið 2008. Hér er um að ræða frumvarp sem hefur tilvísun í þá miklu náttúruvá sem við sjáum fram á og er í raun í gangi í Holuhrauni og í Bárðarbungu. Við vitum ekkert um hvernig þeir atburðir munu þróast. Við vitum ekkert um hvaða atburðir geta orðið í íslenskri náttúru og það er í raun það sem frumvarpið snýst um. Verði um gríðarlegar náttúruhamfarir að ræða, og þá erum við auðvitað að sjálfsögðu að tala um fordæmalausar náttúruhamfarir, verði fyrir hendi ferlar og aðgerðaáætlanir og hvernig hlutirnir eigi að fara fram í lögum. Það er ekki þannig að innanríkisráðherra geti bara einn og sjálfur gripið um taumana við stjórn landsins heldur þarf það að fara í gegnum ríkisstjórn og að sjálfsögðu þarf að fara eftir ákveðnum ferlum komi til þess, sem við að sjálfsögðu vonum að verði aldrei.