144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

almannavarnir o.fl.

412. mál
[23:12]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil ósköp vel að þingmenn þurfi að spyrja sig allra þessara spurninga. Ég held að það sé mjög mikilvægt, eins og ég gat um í framsöguræðu minni, að þingið hafi svigrúm til að fara mjög rækilega yfir málið og leita umsagnar út um þjóðfélagið og átta sig á því hvað sé á ferðinni.

Sem dæmi um hugsanleg viðbrögð við stórfelldum náttúruhamförum — ég ítreka að við erum að tala um stórfelldar náttúruhamfarir — er ef til þess kemur að skammta þarf rafmagn í landinu til að gæta og verja almannahagsmuni, ef hlutirnir eru orðnir það alvarlegir að ekki er öruggt að við getum, ef við höldum áfram með sömu líkingu, framleitt rafmagn, eða ef við förum yfir í fjarskiptin og fjarskiptasamband er með þeim hætti að ekki er hægt að halda því uppi eftir hefðbundnum leiðum heldur þurfi að grípa sérstaklega inn í. Þetta felur í sér ýktar, ef við getum notað það ómögulega orð í þessu tilviki, aðstæður til að bregðast við.