144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

almannavarnir o.fl.

412. mál
[23:21]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég hef áhyggjur af varðandi þetta mál eru valdheimildir sem finna má í 10. gr. þessa frumvarps, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Séu aðstæður knýjandi og stjórnendur hlíta ekki fyrirmælum skv. 2. mgr. geta neyðarráðstafanir ráðherra falist í því að taka tímabundið, eða eins lengi og nauðsyn krefur, yfir stjórn fyrirtækis eða stofnunar í þeim tilgangi að hrinda neyðarráðstöfunum í framkvæmd.“

Sé þessi heimild sett þarna inn þarf það að vera alveg kýrskýrt hvaða skilgreiningar eru á þessu neyðarstigi. Hver lýsir því yfir og hvernig er komist að þeirri niðurstöðu að það ríki? Þetta verður að vera alveg skýrt líka: Hefur ráðherra, og er þá verið að tala um dómsmálaráðherra í þessu tilfelli eða innanríkisráðherra, heimild til þess til dæmis að leysa stjórn Ríkisútvarpsins frá störfum og taka yfir stjórnun þeirrar stofnunar ef hann metur ástandið þannig?