144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

almannavarnir o.fl.

412. mál
[23:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir það, og það held ég að við getum öll gert, að samtakamáttur Íslendinga á ögurstundu hefur ávallt verið mikill og hann þurfum við að varðveita.

En hér erum við að tala um ýtrustu neyð og við erum kannski líka að tala um dálítið annað samfélag — hugsum okkur að margar þær hrikalegustu náttúruvár sem við höfum horfst í augu við gegnum sögu Íslands yrðu að veruleika í dag í því breytta þjóðfélagi, því tækniþjóðfélagi, sem við erum hér að tala um.

Ég gat aðeins um það í ræðu minni að það er kannski það sem líka skiptir máli. Þetta er ekki bara spurning um að rjúfa vegi, þetta getur líka verið mjög mikilvægt fjarskiptatengt mál í allt öðru samfélagi þar sem fyrirtæki eru ekki lengur í eigu ríkisins heldur komin til einkaaðila. Þá geta þær aðstæður komið upp að grípa þurfi inn í til að ákveðnir hlutir komist í kring.

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, ítreka það sem ég sagði í upphafi að þetta er mál af því tagi sem þarf mikla og góða umræðu í þinginu og ég veit að það mun fá það.