144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

423. mál
[23:26]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, með síðari breytingum. Frumvarpi var unnið í samvinnu við Veðurstofu Íslands.

Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að ráðstafa fé úr ofanflóðasjóði til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna vatnsflóða og sjávarflóða ásamt því að gert er ráð fyrir heimild til að nota fé úr ofanflóðasjóði til að taka þátt í kostnaði við hættumat eldgosa verði framlengt um þrjú ár.

Mikilvægi hættumats hefur glögglega komið í ljós í umbrotunum sem nú standa yfir í Bárðarbungu og Holuhrauni. Íslenskt samfélag verður að geta brugðist rétt við eldgosavá sem og annarri náttúruvá. Hættumat er nauðsynleg forsenda þess að allir viðbragðsaðilar geti unnið skipulega og markvisst í náttúruatburðum eins og eldgosum og lágmarkað þannig kostnað samfélagsins.

Tillaga hefur verið lögð fram að verkefnum fyrir næsta áfanga, vinnu við gerð hættumats vegna eldgosa ásamt grófri kostnaðaráætlun. Þar er gert fyrir að ofanflóðasjóður greiði um 45% kostnaðarins og aðrir hagsmunaaðilar, svo sem Alþjóðaflugmálastofnunin, aðilar innan íslenska orkugeirans og aðrir greiði um 55% kostnaðarins. Í þeim áfanga verður lögð áhersla á skilgreiningu áhættuviðmiða en þau eru grundvöllur umfangs allrar áhættustjórnunar.

Eldgosið í Holuhrauni og umbrotin í Bárðarbungu eru vísindalegur fjársjóður sem á eftir að nýtast við gerð áframhaldandi hættumats sem og eldfjallarannsókna almennt. Atburðirnir hafa undirstrikað enn frekar en áður brýna nauðsyn þess að unnið verði samræmt eldgosahættumat fyrir helstu eldstöðvar landsins. Lagt er til að vinnu við hættumat vegna eldgosa sem nú hefur staðið yfir í tæp þrjú ár verði fram haldið næstu þrjú árin, þ.e. frá 2015–2017. Gert er ráð fyrir að hlutur ofanflóðasjóðs í kostnaði við vinnu við næsta áfanga við gerð hættumats vegna eldgosa verði 120 milljónir alls næstu þrjú árin.

Bent hefur verið á að mikilvægt er að taka á allri náttúruvá með sama hætti og gert hefur verið varðandi ofanflóðin. Er þess vegna lagt til í frumvarpinu að hættumat verði í fyrsta skipti unnið fyrir vatnsflóð og sjávarflóð samkvæmt hættumatsramma Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar og Sameinuðu þjóðanna. Sá rammi hefur reynst vel við vinnu hættumats vegna ofanflóða hér á landi eins og hann hefur gert víða um heim.

Árið 2006 urðu mikil vatnsflóð á Suðurlandi, í Borgarfirði, Skagafirði, Eyjafirði og við Skjálfandafljót og var vatnamælingum Orkustofnunar falið í kjölfarið að kortleggja flóðamörk, leggja mat á flóðahæð, byggja upp gagnabanka um söguleg flóð og setja upp vatnshæðarmæla. Er þessi vinna grunnur að því hættumati vatnsflóða sem nú er lagt til að gert verði. Í fyrsta áfanga verkefnisins um hættumat vegna vatnsflóða er lagt til að upplýsingar um söguleg flóð verði tekin saman, áhrifasvæði mögulegra flóða metin og áhættuviðmið skilgreind. Brýnt er að skilgreina áhættuviðmið varðandi vatnsflóð en það hefur aldrei verið gert hér á landi. Þessi upphafsvinna við hættumat er grundvöllur fyrir gerð viðbragðs- og rýmingaráætlana og áhættuminnkandi aðgerða. Mikilvægt er að fyrir liggi upplýsingar um flóð og flóðahættu, t.d. þegar sveitarfélög taka ákvarðanir um landnotkun. Eins þarf að byggja upp kerfi til að hægt sé að vara við flóðum og fylgjast með framgangi þeirra með viðvörðunarkerfi og vöktunarmælum. Gert er ráð fyrir að hlutur ofanflóðasjóðs í kostnaði við vinnu við gerð hættumats vegna vatnsflóða verði 90 milljónir næstu þrjú árin.

Eins og áður sagði er brýnt að unnið verði hættumat vegna allrar náttúruvár og eru sjávarflóð þar ekki undanskilin. Fjölmörg dæmi eru um minni eða meiri tjónaflóð víða við strendur landsins og hefur Vegagerðin gert áætlun um sjóvarnir og metið nauðsyn framkvæmda vegna þeirra í samræmi við lög nr. 28/1997, um sjóvarnir. Nauðsynlegt er að vinna úttekt á mögulegum sjávarflóðum á lágsvæðum landsins þar sem forsendur eru breyttar frá því að fyrri úttekt var gerð á fyrri hluta 10. áratugar síðustu aldar á vegum Vita- og hafnamálastofnunar, Skipulags ríkisins og Viðlagatryggingar. Einnig hefur aukin þekking á áhrifum loftslagsbreytinga, m.a. á sjávarstöðu, hopi jökla og þar af leiðandi landrisi og landsigi, gert það að verkum að nauðsynlegt er að slík úttekt fari fram.

Í fyrsta áfanga verkefnisins um hættumat vegna sjávarflóða verður farið yfir fyrirliggjandi úttektir og þær settar í samhengi við loftslagsbreytingar, spár um breytingar á sjávarstöðu, landris og landsig og mismunandi endurkomutíma sjávarflóða. Svæðum þar sem vinna þarf hættumat verður forgangsraðað og áhættuviðmið verða skilgreind. Þessi upphafsvinna við hættumat er grundvöllur fyrir gerð viðbragðs- og rýmingaráætlana og áhættuminnkandi aðgerða.

Eins og gildir um vatnsflóðin þá er mikilvægt að fyrir liggi upplýsingar um flóð og flóðahættu vegna sjávarflóða, t.d. til upplýsinga fyrir sveitarfélög til að taka ákvarðanir um landnotkun. Eins þarf að byggja upp kerfi til að hægt sé að vara við flóðum og fylgjast með framgangi þeirra með viðvörunarkerfi og vöktunarmælum. Gert er ráð fyrir að hlutur ofanflóðasjóðs í kostnaði við vinnu við gerð hættumats vegna sjávarflóða verði 45 milljónir næstu þrjú árin. Samráð var haft við innanríkisráðuneytið og Vegagerðina varðandi þann þátt frumvarpsins sem lýtur að sjávarflóðum. Jafnframt er nauðsynlegt að Veðurstofa Íslands og Vegagerðin vinni saman að verkefninu.

Auk þess sem hér hefur verið greint frá felst í frumvarpinu ótímabundin framlenging á þeim ákvæðum sem greinir í lögum nr. 22/2012, um breytingu á lögum nr. 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, sem að óbreyttu falla annars úr gildi 31. desember næstkomandi. Í lögum nr. 22/2012 var öllum þeim breytingum sem í lögunum fólust afmarkaður þriggja ára gildistími en ekki eingöngu þeirri heimild ofanflóðasjóðs að veita fé í gerð hættumats vegna eldgosa eins og gert var ráð fyrir í frumvarpinu sem var lagt fram á Alþingi. Vegna þessa er nauðsynlegt að leggja fram frumvarp til að ráða bót á þessu og tryggja þar með að efni ákvæða 1.–3. gr. þessa frumvarps falli ekki brott úr lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum um næstu áramót.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.