144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

423. mál
[23:35]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það má segja ef við förum gróflega yfir það hvar við erum stödd að við séum úti í miðri á. Ef við ætlum að ljúka verkefninu, uppbyggingu snjóflóðavarna, á þeim tíma sem reglugerðin segir til um, sem mig minnir að sé 2020, þá þyrftum við sennilega að vera að framkvæma fyrir 2,5 milljarða á ári. Sumpart er það ekki skynsamlegt, hvorki fjárhæðarinnar vegna né heldur verkefnanna, það er skynsamlegra að þau taki lengri tíma. Það er því mjög líklegt að á einhverjum tíma á næstu árum væri skynsamlegt, eins og þingmaðurinn benti á, að setjast yfir það að verkefnið hafi gengið mjög vel hvað þennan þátt varðar, ofanflóðin, en viðurkenna um leið að það eru fleiri náttúruvár sem við erum auðvitað að nýta fjármunina hér í til að gera hættumat og þyrftum við hugsanlega að skoða hvort skynsamlegt sé að nýta þessa aðferðafræði við að bregðast við öðrum flóðahættum, eins og hér er verið að leggja til með því að setja á laggirnar hættumið, skoða viðmið og áhættugreiningu og annað í þeim dúr. Það getur einnig verið skynsamlegt í framhaldinu að við værum með einhvers konar fjármögnun til að bregðast við forvarnagörðum sem við þyrftum hugsanlega að setja upp, sérstaklega varðandi snjóflóð og reyndar önnur flóð eins og skriðuföll, sem við höfum svo sem séð á síðustu árum að geta valdið umtalsverðu tjóni og verið hættuleg í sjálfu sér.

En við erum um það bil stödd í miðri á og þurfum án efa á næstu árum að velta fyrir okkur hvernig við ætlum að klára verkefnið.