144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

423. mál
[23:37]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég hef verið að skoða aðeins kostnaðarmat fjármála- og efnahagsráðuneytisins og veldur það mér nokkrum áhyggjum, svo ekki sé fastar að orði kveðið, því að fjármála- og efnahagsráðuneytið bendir á það sem rétt er, að sjóðurinn er stofnaður í þeim tiltekna tilgangi að vinna að þessum framkvæmdum og fjármála- og efnahagsráðuneytið telur óeðlilegt að færa ákveðna fjármögnun annarra verkefna inn í sjóðinn án þess að þau framlög séu sett á viðeigandi stofnanir í fjárlögum og þá jafnvel undir öðrum ráðuneytum, eins og lítur út fyrir að sé hér á ferðinni. Með þessu fyrirkomulagi ætti þá að gera ráð fyrir sértekjum hjá þeim stofnunum o.s.frv. og það kallar á töluverða handavinnu í umbúnaði. Það hafa ekki komið tillögur frá ráðuneyti um þetta í fjárlagafrumvarpi og fjármálaráðuneytið gerir mjög alvarlegar athugasemdir við þennan þátt. Ég verð að viðurkenna það fyrir hæstv. ráðherra að mér hugkvæmdist ekki að þetta væri ekki í lagi gagnvart fjármálaráðuneytinu.

Ég verð að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái einhverja leið til að búa svo um hnútana í þessum þáttum, vegna þess að ég held að það séu engar hindranir í veginum fyrir því að framlengja ákvæði sem varðar það að halda verkefnunum áfram sem við hófum með sérstökum lögum árið 2012. En þegar um er að ræða það að við erum farin að víkja frá góðum praxís í bæði fjárlagagerð og í samskiptum við fjármálaráðuneytið held ég að við þurfum að staldra við og finna góðar leiðir til þess að ljúka því svo einhver sómi sé að. Ég vil í fullri einlægni spyrja ráðherrann hvort hann eigi einhver ráð fyrir þingið til að ljúka þessu máli á stuttum tíma þannig að sómi sé að og fjármálaráðuneytið sé sátt við vinnubrögð okkar.