144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

422. mál
[23:45]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, með síðari breytingum. Frumvarpið var unnið í samvinnu við úrskurðarnefnd auðlindamála.

Tilefni frumvarpsins er í fyrsta lagi að bregðast við vanda úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna aukins fjölda kærumála hjá nefndinni miðað við þær forsendur sem lágu fyrir við stofnun hennar frá 2012 sem og undirmönnum á skrifstofu nefndarinnar miðað við gefnar forsendur.

Í öðru lagi hefur fortíðarvandi úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem lögð var niður með lögum nr. 131/2011, aukið á vandann, en þegar lögin tóku gildi og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindanefnda tók til starfa voru enn 125 mál óafgreidd hjá eldri úrskurðarnefnd. Langur málsmeðferðartími hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefur verið tilefni aðfinnslna af hálfu umboðsmanns Alþingis og er brýnt að bæta úr því.

Til að auka hagkvæmni og skilvirkni í störfum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og þar með stytta málsmeðferðartíma hjá nefndinni er lagt til í fyrsta lagi að fjölga nefndarmönnum um tvo þar sem varaformaður nefndarinnar er skipaður sem aðalmaður í nefndina og einn lögfræðingur til viðbótar, samanber 1. gr. frumvarpsins.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er í dag skipuð sjö mönnum, formanni sem skal uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara ásamt sex nefndarmönnum með mismunandi sérþekkingu. Að jafnaði er nefndin skipuð þremur fulltrúum við meðferð máls en fimm í stærri málum. Er talið nauðsynlegt að styrkja nefndina með því að fjölga lögfræðimenntuðum nefndarmönnum í ljósi þess að reynslan sýnir að sá nefndarmaður sem er lögfræðimenntaður er oftast boðaður til funda nefndarinnar.

Ákveðið hagræði fest einnig í að varaformaður úrskurðarnefndar verði aðalmaður í nefndinni en þá þarf einungis að boða einn utanaðkomandi nefndarmann á fund þegar nefndin er skipuð þremur nefndarmönnum. Mikið hagræði getur verið fólgið í því þar sem nefndinni yrði þá til dæmis kleift að funda yfir sumartímann.

Í öðru lagi er lagt til að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála verði gert kleift að starfa í deildum til aukinnar skilvirkni, samanber 2. gr. frumvarpsins. Er hér höfð hliðsjón af lögum yfirskattanefnd um deildaskiptingu sem greiða ætti fyrir meðferð mála.

Í þriðja lagi er úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála endanlega lögð niður og úrskurðarnefnd auðlinda- og umhverfismála falið óskorað umboð til að ljúka óafgreiddum málum úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og skipunartíma nefndarmanna eldri nefndar ljúki þar með, samanber 4. gr. frumvarpsins. Er það lagt til svo mál úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála fái hraðari og skilvirkari afgreiðslu.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til umhverfis- og samgöngunefndar.