144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

422. mál
[23:50]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur svo sem verið nokkur glíma frá því að ég kom í ráðuneytið að tjónka við fjárveitingavaldið um að fá aukið fjármagn í þetta verkefni og fá betri skilning á því. Það tókst nú í ár en ekki nægilega vel á síðastliðnu ári. Hvort það er nákvæmlega vegna innleiðingar Árósasamningsins eða einhverra fleiri þátta eins og aukins skilnings fólks og meðvitundar um réttindi og annars, er það minnsta kosti þannig að gert var ráð fyrir að kærum mundi fjölga um 30% en þeim fjölgaði um 55%. Ekki hefur verið kannað nákvæmlega hvað veldur því og er kannski erfitt að gera það, en samningurinn er án efa ein skýringin. Þær geta auðvitað verið fleiri.

Ég held að ég geti fullyrt að enn séu óafgreidd 60 mál af 125 málum frá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála um í lok árs 2013. Það hefur kannski ekki gerst mjög margt í þeim málum. Á sama tíma voru 127 mál óafgreidd hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og lögbundinn frestur liðinn í þeim flestum. Það er því ljóst að við höfum talsverðan stabba til að kljást við og ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þessa frumvarps og hversu jákvætt það er. Það tekur á mikilvægum hlutum til að koma þessum málum í lag. Ég vænti þess að á næsta ári með breyttu skipulagi og auknum mannafla, meiri tekjum muni ganga nokkuð hratt að koma þessum hlutum í lag en það þarf líka að breyta verklagi sem viðhaft hefur verið á yfirstandandi ári.