144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

404. mál
[23:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 41/2013, um heimild til handa ráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi. Þetta er breyting á 1. gr. þar sem í stað ártalsins 2015 kemur ártalið 2016.

Með lögum nr. 41/2013 var ráðherra veitt tímabundin heimild fyrir hönd ríkissjóðs til að fjármagna og þar með undirrita samninga um þátttöku ríkisins vegna uppbyggingar á nauðsynlegum innviðum til að iðnaðarsvæðið gæti risið í landi Bakka í Norðurþingi. Í því felst stækkun hafnar og vegtenging milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka. Áætlað er að uppbygging hafnarmannvirkja og vegtengingar taki um tvö og hálft til þrjú ár.

PCC BakkiSilicon hf. fyrirhugar að reisa og reka kísilmálmframleiðslu á Bakka. Íslensk stjórnvöld undirrituðu fjárfestingarsamning við félagið 27. september 2013. Samkvæmt lögum nr. 41/2013 er heimild ráðherra bundin þeirri forsendu að vinna hefjist ekki við umræddar framkvæmdir fyrr en tryggt er að fyrirtækið hafi skuldbundið sig til að hefja framkvæmdir við umrætt fjárfestingarverkefni. Að óbreyttu falla heimildarlögin úr gildi 1. janúar 2015 hafi uppbygging vegar og hafnar ekki hafist fyrir þann tíma.

Forsvarsmenn PCC BakkiSilicons hf. hafa upplýst stjórnvöld um að fjármögnun verkefnisins hafi tafist. Vonir standa til að félagið nái að ljúka við fjármögnun, aflétta fyrirvörum og hefja framkvæmdir á næstu mánuðum. Gangi það eftir er brýnt að íslensk stjórnvöld geti hafið framkvæmdir við höfnina og vegtengingu milli hafnarinnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka. Í ljósi framangreinds er mikilvægt að gildistími heimildarlaganna verði lengdur um eitt ár, eða til 1. janúar 2016.

Þær ráðstafanir sem gildandi lög taka til hlutu staðfestingu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) hinn 26. febrúar 2014. Íslensk stjórnvöld hafa borið þá breytingu á lögum sem hér um ræðir undir ESA sem telur breytinguna ekki kalla á sérstakt samþykki sitt. Ég mæli með því að frumvarpið gangi beint til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.