144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni dagskrána í þinginu í dag og lýsa yfir furðu minni á því að seðlabankafrumvarpið sé ekki fyrst á dagskrá. Fyrst á dagskrá eru fjáraukalögin en þau innihalda hluti sem geta tæpast talist í lagi að samþykkja í ljósi þess að þar skiptir máli frumvarpið um Seðlabankann.

Við í minni hluta fjárlaganefndar gerum athugasemdir meðal annars við færslu fjármuna í Seðlabankanum, en á milli umræðna hafa verið færðir 13 milljarðar á fjármunahreyfingar í sjóðstreyminu vegna endurgreiðslunnar á stofnfé í bankanum. Við teljum að það eigi ekki að fara í gegnum rekstrarreikning ríkisins, þ.e. þessi lækkun umfram stofnfé, uppsafnaður hagnaður eigi að tekjufærast. Því teljum við að skoða eigi betur hvernig meðhöndla eigi slíkar breytingar á eigin fé bankans í reikningsskilareglum ríkissjóðs. Með lækkun á stofnfé Seðlabankans, eins og hún er sett fram núna, er gert ráð fyrir því að það verði fullt samræmi á milli stofnfjár Seðlabankans og mats þess í aðalbókhaldi ríkissjóðs. Það teljum við ekki vera í samræmi við bókun á eigin fé annarra félaga og hlutafélaga í bókhaldi ríkissjóðs. Við í minni hlutanum teljum því eðlilegt að það eigi að vera samræmi við meðhöndlun þessara eignarhluta og þess vegna gerum við athugasemdir við þetta. En fyrst og fremst lýsum við auðvitað furðu á því, bæði varðandi fjárlögin og fjáraukalögin, að frumvarp um Seðlabankann skuli ekki vera klárað fyrst. Ég spyr: Af hverju er það ekki fyrst á dagskrá?