144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta fyrir góða og skelegga fundarstjórn í gær við erfiðar aðstæður og langa atkvæðagreiðslu.

Það sem mig langaði að tala um hér í dag er að í síðustu viku opnaði Götusmiðjan aftur útibú á Stórhöfða. Ég var þar viðstaddur og hitti forstöðumann, og þá sem standa að þessu verkefni, sem sagði mér frá því hvernig staða ungmenna í vímuefna- og áhættutengdum lífsstíl er í dag. Hann er þannig að ekki er við það unandi lengur. Þess vegna fannst honum hann knúinn ásamt sínu fólki að stofna og setja af stað þetta úrræði aftur. Í viðtölum mínum við það fólk kom fram að á undanförnum missirum og bara núna á síðustu vikum og mánuðum höfum við misst fjölda ungmenna, sem hafa dáið af völdum fíkniefnaneyslu og hafa verið að taka eigið líf sem er grafalvarleg staða. Það segir okkur líka að við leggjum ekki nógu mikla peninga í þennan málaflokk, í forvarnir og úrræði fyrir þessi ungmenni. Því miður virðist allt of lítið talað um þetta í samfélaginu. Svo virðist vera sem þau séu þessi týndu börn sem enginn vill tala um en á meðan þjást fjölskyldur um allt land út af þessu. Ég þekki sjálfur manneskju sem átti ungling í eiturlyfjaneyslu og það er vægast sagt skelfileg lýsing sem hún lýsti fyrir manni á hverjum einasta degi, hvernig er að eiga ungling í neyslu. Við þekkjum þetta öll, þetta snertir alla þjóðina, sá vágestur sem fíkniefni eru. Ég minni okkur þingmenn á það og alla að við verðum að standa vörð um þetta unga fólk. Við erum lítið samfélag sem megum ekki við því að missa ungt fólk í blóma lífsins vegna þess að við getum ekki boðið því upp á úrræði eða aðstöðu til að takast á við þennan vanda. Þetta er háalvarlegt mál sem ég vona að við getum beitt okkur fyrir á næsta ári af miklu meiri krafti.