144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þakkir til virðulegs forseta fyrir dygga og örugga fundarstjórn í gærkvöldi við erfiðar aðstæður á löngum fundi. En hvað er það sem sameinar þjóðina þegar eitthvað bjátar á, þegar fjölskyldur vilja gleðjast á stærstu stundum lífsins? Það er kirkjan okkar. Við erum kristin þjóð og kristin trú er einn af hornsteinum samfélagsins sem frá barnæsku hefur kennt okkur góða siði, umburðarlyndi og hjálpsemi. Okkur hefur verið kennt að hafa sannleikann að leiðarljósi og sú von sem felst í trúnni hefur hjálpað okkur í gegnum erfiðustu stundir lífs okkar. Hvers vegna er þá hlustað á úrtölufólk, algjöran minni hluta þjóðarinnar sem vill burt reka kristin gildi úr skólum landsins og koma í veg fyrir að börn okkar fái að kynnast þeirri fegurð sem kristin trú hefur boðað þessari þjóð í þúsund ár? Svo rammt kveður að þessu að skólastjórnendur víða um land afþakka heimsóknir þeirra sem vilja boða gleði jólanna. Gideon-félagar sem hafa gefið börnum Nýja testamentið áratugum saman fá ekki lengur að flytja þann boðskap til barna á fermingaraldri.

Virðulegur forseti. Hver er hættan fyrir börnin okkar? Hvaða barn hefur beðið þess skaða að hlusta á gleði og góð gildi sem kirkjunnar fólk hefur komið með inn í grunnskóla landsins með því að halda litlu jólin, syngja sálma og segja börnunum frá hinum sanna jólaanda? Hvað er að því að fegurð jólanna birti skólabörnum ljós lífsins, ljós vonar og gleði? Ég hvet skólastjórnendur í grunnskólum landsins um allt land til að standa vörð um kristna trú í samfélagi okkar og bjóða þá velkomna sem boða kristin gildi og fegurð jólanna fyrir börnin okkar.

Virðulegur forseti. Látum ekki háværa minnihlutahópa taka völdin og úthýsa jólagleðinni og boðskap jólanna úr lífi skólabarna okkar og fjölskyldna.