144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til þess að tala um læknaverkfallið. Það hefur staðið nokkuð lengi og ég hef vaxandi áhyggjur af þessu verkfalli, og ég finn það meðal mjög margra þingmanna að þeir hafa áhyggjur af stöðunni. Hún er mjög erfið og þetta hefur mikil áhrif á spítalaþjónustu og aðra heilbrigðisþjónustu í landinu.

Í gær var felld frekar hógvær tillaga frá minnihlutaflokkunum um að auka aðeins meira til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri út af fyrirsjáanlegum kostnaði vegna verkfallsaðgerðanna, það koma til með að hlaðast upp biðlistar. Við alþingismenn erum spurðir mjög að því hvað Alþingi eigi að gera, hvað stjórnvöld eigi að gera. Og ég verð að taka undir með sumum þingmönnum sem hafa lýst því yfir að þeim finnist óþægilegt að fara í jólahlé eða þinghlé — ég geng nú ekki svo langt að kalla það frí — án þess að hafa reynt að ræða það hvernig Alþingi getur komið að þessu máli, hvernig hið opinbera getur beitt sér.

Auðvitað er þetta hefðbundin kjaradeila og aðkoma alþingismanna er ekki bein inn í kjaradeilur en þessi kjaradeila er að mörgu leyti sérstök. Við stöndum frammi fyrir tveimur erfiðum kostum. Ef við hækkum laun lækna mjög mikið er hætta á því að það verði hefðbundið launa- og verðbólguskrið í landinu, það er þekkt hætta. En ef við mætum hins vegar ekki kröfum lækna þá er staðan einfaldlega sú að þeir vinna í alþjóðlegu starfsumhverfi og geta þá farið í stórum stíl.

Þessi erfiða staða finnst mér vera tilefni til þess að við, áður en við förum í þinghlé,(Forseti hringir.) efnum til fundar formanna flokkanna til að ræða hvernig (Forseti hringir.) hið opinbera og Alþingi getur beitt sér í stöðunni. (Forseti hringir.) Hugsanlega þarf að taka þetta út úr (Forseti hringir.) hefðbundnum farvegi.