144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hélt að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefði kvatt sér hljóðs í dag til þess að biðja Ríkisútvarpið afsökunar. Þess í stað fer hann að tala um kröfur stjórnarandstöðunnar í málinu. En, virðulegur forseti, þetta snýst ekkert um kröfur stjórnarandstöðunnar. Stjórnarformaður Ríkisútvarpsins, fulltrúi þingflokks Sjálfstæðisflokksins, rekur það í Morgunblaðinu í dag að varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hafi æ ofan í æ farið með staðlausa stafi um málefni Ríkisútvarpsins. Þess vegna hélt ég eftir þessa hirtingu að þingmaðurinn væri kominn hingað upp til þess að biðjast afsökunar á þeim staðlausu stöfum. En þetta er býsna ótrúleg staða að stjórnarformaður, sem er fulltrúi þingflokks Sjálfstæðisflokksins, lýsi því yfir á opinberum vettvangi að varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins fari með staðlausa stafi um lykilstofnun í íslensku samfélagi.

Þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir, lýsti því yfir við starfsmenn Ríkisútvarpsins hér á Austurvelli að Framsóknarflokkurinn væri hættur að nenna að styðja Ríkisútvarpið. Það er erfiðara á átta sig á stöðunni í Sjálfstæðisflokknum þegar trúnaðarmaður Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra hirtir hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson með þessum hætti. Eru þetta innanflokksátök í Sjálfstæðisflokknum sem eru að leika Ríkisútvarpið svona grátt? Hvað sem því líður held ég að betur færi á því að sjálfstæðismenn héldu innanflokksátökum sínum í Valhöll og hefðu ekki Ríkisútvarpið að bitbeini, því að það er okkur Íslendingum allt of mikilvæg stofnun, allt of mikilvæg fyrir tungu okkar, fyrir menningu okkar og fyrir lýðræðislega umræðu í landinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)