144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. frummælanda málsins fyrir ágæta ræðu. Ég ætla ekki að ræða um hana beint þótt ég sjái ýmislegt í þessum tillögum sem ég er ekkert afskaplega sáttur við, eins og aukna skuldaniðurfærslu á þessu ári í stað þess að lækka skuldir ríkissjóðs.

Ég spyr: Er eðlilegt að fjáraukalög séu komin til 3. umr. á undan fjárlagafrumvarpinu? Fjáraukalögin eru til þess að taka á óvæntu. Hér er talað um að kostnaður vegna eldgossins í Holuhrauni sé svo og svo mikill. Hvernig veit maður hvort hann er á enda? Árið er ekki búið. Hvað gerist ef það verða einhverjar hamfarir, sem maður vonar innilega að gerist ekki, hvað ætla menn þá að gera? Þá eru engin fjáraukalög til.

Mér finnst að fjáraukalög eigi að vera síðasta málið. Ég beini því til forseta að fjáraukalög ættu í rauninni að vera síðasta málið sem Alþingi afgreiddi fyrir jólahlé eða jafnvel fyrsta málið sem menn afgreiddu á nýju ári vegna þess að þá liggur fyrir það sem var óvænt á fyrra ári.