144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[11:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir afar góða og upplýsandi ræðu og sérstaklega fyrir skemmtilegt, sögulegt yfirlit um störf Framsóknarflokksins sem og Samfylkingarinnar. Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns af þeim afleiðingum sem hækkun á virðisaukaskatti á matvæli kemur til með að hafa á tekjulágt fólk. Hv. þingmaður minntist hins vegar ekkert í ræðu sinni á hækkun á virðisaukaskatti á bækur, tónlist og menningu þar sem bókaútgefendur hafa lýst því yfir að þetta hafi fyrirsjáanlega erfiðleika fyrir bókaútgáfu í landinu. Svo spyr ég hv. þingmann hvort ekki megi leiða líkur að því að þessi virðisaukaskattsbreyting muni leiða til hækkunar á verði á bókum fyrir neytendur sem og á annarri menningu sem fær á sig virðisaukaskattsbreytingu. Er ekki hætta á því að þetta muni gera tekjulágu fólki enn erfiðara um vik að taka þátt í menningarlífi? Verður ekki munaður að kaupa bækur og njóta annarrar menningar? Er ekki hætta á að hér dragi enn í sundur með þeim efnameiri í samfélaginu sem geta leyft sér slíkt og þeim efnaminni?