144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[11:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig að hv. þingmaður hafði fróðleik af þessari sögulegu upprifjun minni um samskipti mín og Framsóknarflokksins. Ég kemst stundum á flug þegar ég tala um Framsóknarflokkinn vegna þess að mér rennur til rifja hvernig hann liggur á hnjánum frammi fyrir Sjálfstæðisflokknum í hverju málinu á fætur öðru. Mér þykir vænt um Framsóknarflokkinn og marga þá þingmenn sem honum tilheyra og ég vil ekki sjá þá í þessari stöðu. Mér er raun að því að sjá söguna endurtaka sig svona í þriðja skiptið þar sem Framsóknarflokkurinn er tekinn nánast í nefið eins og mél af Sjálfstæðisflokknum. Sagan er að endurtaka sig með nákvæmlega sama hætti og áður.

Varðandi bækurnar komst ég einfaldlega ekki svo langt en ég hef fortíð í þessu máli eins og svo mörgu. Ég barðist fyrir því á sínum tíma, einn fárra þingmanna, að virðisaukaskattur á bækur yrði settur í sérstakan flokk, núllflokk. Það vill svo til að fjögur eða fimm lönd í Evrópu eru með slíka skattlagningu á bækur og ég tel að fyrir land eins og Ísland sem hefur örlítið málsvæði sem þarf að taka fast á og af mikilli gerhygli til þess einfaldlega að tryggja framhaldslíf tungunnar sé þetta ein af þeim leiðum sem við eigum að skoða. Til að svara spurningu hv. þingmanns óttast ég ástandið þegar verið er að hækka verð á bókum, sérstaklega barnabókum, um 4%, og við blasir yfirlýsing hæstv. fjármálaráðherra sem framsóknarliðið virðist ekki gera mikið úr, að það eigi síðar á kjörtímabilinu að hækka virðisaukaskattinn upp í 14%. Já, þá ber ég ugg í brjósti gagnvart framtíðinni og ég tel að allir eigi að gera það. Það eiga allir að leyfa sér þann munað að vera hræddir fyrir hönd tungunnar.