144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að misskipting sé að aukast. Það er ekki bundið við Ísland, það er þróun sem við sjáum að minnsta kosti á Vesturlöndum. Misskipting sviptir menn ekki bara möguleikum á því að njóta ríks lífs, hún er í sjálfu sér uppspretta vanlíðunar og óhamingju.

Ef hin efnahagslegu áhrif misskiptingar fara yfir ákveðið þrep gagnvart hagkerfi þjóða eru menn um þessar mundir að leiða sem óðast fram rök fyrir því að hún dragi úr hagvexti, ef við viljum einungis horfa á þetta frá því þrönga sjónarhorni. Það blasir við að á síðustu tíu árum hefur aukin misskipting í Bretlandi leitt til þess að hagspekingar, þar á meðal breski seðlabankinn, hafa komist að þeirri niðurstöðu að það eitt og sér hafi samanlagt dregið 9% úr því sem ella hefði orðið hagvöxtur í Bretlandi. Þetta hefur ekki verið reiknað fyrir Ísland en ég ímynda mér að við séum að leggja út á þessa þróun líka undir þessari ríkisstjórn, því miður.

Ég horfi líka á það sem aðrar tölur segja mér, af því að við erum að tala hér um bækur, list orðsins, læsi, að það virðist vera samhengi á millum virðisaukaskatts á bækur og lestrargetu þjóðar. Hjá þeirri þjóð í Evrópu sem hefur hæstan virðisaukaskatt á bækur, Búlgaríu, er ólæsi útbreiddast.

Varðandi Framsóknarflokkinn þykir mér miður ef hv. þingmanni þykir ekki vænt um hann. Ég er fæddur 1953 en ég lít svo á að ég hafi verið í samstarfi við Framsóknarflokkinn síðan 1916 þegar mínir pólitísku áar og Framsóknarflokksins í dag fyrst spruttu úr jörðu. Þá ætluðum við að skapa hér samfélag þar sem verkalýður í bæjunum og bændur til sveita tækju höndum saman og ef menn vilja sjá hvar íslenskt samfélag reis hæst (Forseti hringir.) var það akkúrat þegar þessir hópar náðu saman.