144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög ánægður með þessa spurningu hv. þingmanns. Hún undirstrikar muninn á okkur tveimur. Ég vil ekki hafa forsjárhyggju gagnvart fólki, ég vil ekki stýra því en hv. þingmaður vill það. Hann vill stýra fólki með sköttum. Ég tel að einstaklingurinn sé frjáls að því að gera það sem hann vill. Það þarf að upplýsa hann en síðan er hann frjáls að gera það sem hann vill. Ef sykur er ávanabindandi eins og sumir hafa haldið fram, mér er ekki kunnugt um að það hafi nokkurn tímann verið sannað frekar en margt annað í sambandi við neysluvenjur, ættu menn að horfa sérstaklega til barnanna. Hverjir kaupa sykur handa börnunum? Ekki þau sjálf. (FSigurj: Afi og amma.) Það eru foreldrarnir og afi og amma. Kannski ætti maður að upplýsa þá aðila alveg sérstaklega um hættuna af því að gefa fólki sykraðar mjólkurvörur og annað slíkt. Það væri miklu meira virði en að hækka verðið því að ég hugsa að verðteygni þessarar vöru sé ekkert sérstaklega mikil. (Gripið fram í.) Fólki finnst hún svo góð á bragðið að þó að hún kosti töluvert meira, ég segi kannski ekki tvöfalt, hafi það ekki mikil áhrif á neysluna. Það er miklu meira virði að upplýsa foreldra og sérstaklega afa og ömmu um hvað það er skaðlegt að gefa sykur og sætindi og að það ætti frekar að gefa ávexti og grænmeti.