144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:34]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Miklu frekar að gefa þeim ávexti og grænmeti? Þessi ríkisstjórn er að fara að hækka skatta á þær vörur. Það á að lækka skatta á sykraðar vörur og hækka skatta á ávexti og grænmeti. Hv. þingmaður stendur hér og segir: Við eigum að upplýsa fólk um að það eigi frekar að gefa börnunum sínum ávexti og grænmeti og síður sykur.

Hvers konar skilaboð er þá verið að senda úr þessum stól og héðan úr þessum sal með þeim ákvörðunum sem hér er verið að taka? Það er verið að senda allt önnur skilaboð. Menn geta ekki bara staðið hér og sagt eitt og verið svo að gera eitthvað allt annað sem stemmir engan veginn við það sem sagt er.

Og verðteygni? Hún er einmitt ekki mikil þegar kemur að þessum vöruflokki hjá þeim sem eldri eru. Þess vegna er þetta góður skattur. Verðteygnin er hins vegar mikil hjá þeim sem yngri eru. Verðbreytingarnar hafa mikil áhrif á þá sem yngri eru, á unga fólkið, unglingana. Við ættum frekar að hvetja þá til þess að borða hollari vöru með því að hækka (Forseti hringir.) ekki skatta á (Forseti hringir.) þær eins og verið er að gera hér, heldur akkúrat öfugt, halda þessum (Forseti hringir.) skatti og sleppa hækkunum á almenna matvöru.