144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er akkúrat munurinn á mér og hv. þingmanni, ég hef ekki þá ofurtrú að ég geti stýrt neyslu fólks með fínum hætti, með því að láta skattana hækka örlítið meira eða minna. Ég hef bara enga trú á því. Þó að gulrætur hækki um 3,7%, þ.e. kosti 104 kr. í staðinn fyrir 100-kall, hugsa ég að hvorki afi né amma eða pabbi né mamma mundi hætta við að kaupa gulrætur, út af 4 kr. Það held ég alls ekki. Upplýsingin og fræðslan hefur miklu meira gildi, það er brýnna að upplýsa fólk um hvað það er mikilvægt að börnin fái hollan mat en sykurinn, það væri miklu meira virði. Setjum pening í það. (KaJúl: Hvaða pening? Vaskinn af grænmeti?)