144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alltaf spurningin um verðteygni vöru, hvað menn eru tilbúnir til að bakka frá kaupum af því að varan er dýr. Í stærri kaupum eins og fatnaði, svo ég tali nú ekki um bílakaupum og slíku, horfa menn ansi mikið til verðsins. Ég held að menn horfi miklu minna til verðsins þegar um er að ræða matvöru. Ég geng um mína verslun og sé hvernig fólk hegðar sér, það kaupir epli þó að það kosti 400 kr. þó að eplið við hliðina kosti 200 kr. Ég held að það sé ekkert voðalega mikil verðteygni þegar menn kaupa mat. Það sem ég er á móti er að þingmenn segi fólki eða telji sig geta sagt fólki með því að hækka verðið á vörum með sköttum að það eigi ekki að borða þessa vöru heldur hina vöruna. Það er miklu betra að upplýsa menn. Ég er alveg hlynntur því að hafa lýðheilsustefnu og upplýsa um hvaða matvörur eru hollar, hvaða líferni er hollt og slíkt, t.d. hreyfing. Ég er mjög hlynntur því, en ég vil ekki að skipa fólki að gera það. Það er kannski akkúrat munurinn á mér og öðrum hv. þingmönnum.