144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún talaði um að hækkun á virðisaukaskatti á bækur mundi hugsanlega koma í veg fyrir læsi. Ef ég tek mið af sjálfum mér sem einhvers konar könnun hugsa ég að svona 80% af því sem ég les lesi ég af netinu, ekki af bókum, 10% kannski af dagblöðum og restina í bókum. Ég hugsa að hjá yngra fólki og sérstaklega börnum sé þetta enn stærra hlutfall af því sem menn lesa á netinu þannig að ég veit ekki hversu mikil áhrif hækkun á verði bóka muni hafa á læsi barna.

Hv. þingmaður sagði að núverandi ríkisstjórn hefði lagt auðlegðarskattinn af. Það er ekki rétt. (Gripið fram í: Nei.) (Gripið fram í: Neei.) Síðasta ríkisstjórn setti auðlegðarskattinn á og tók hann af. Engin lög hafa verið sett um auðlegðarskatt á yfirstandandi kjörtímabili. Það hefur mjög oft komið fram í umræðunni og mjög víða að núverandi ríkisstjórn sé að leggja þennan skatt af. Hann var hins vegar gagnrýndur dálítið mikið á sínum tíma vegna þess að í honum eru ekki lífeyrisréttindi sem oft hlaupa á hundruðum milljóna og ættu að sjálfsögðu að teljast sem eign eins og hver önnur eign. Sumir spara í húsnæði eða innstæðum og aðrir spara í lífeyrisréttindum. En þessi auðlegðarskattur var ekki með lífeyrisréttindum og það er kannski vegna þess að margir þeir sem styðja þetta, ráðherrar og aðrir slíkir, eru með mjög góð og verðmæt lífeyrisréttindi.