144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Það er athyglisvert, herra forseti, að þeirri skoðun sem við hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir deilum er líka deilt með nokkrum þingmönnum stjórnarliðsins. Það hefur komið fram í umræðum um þetta dagskrármál að alltént tveir ef ekki þrír hv. þingmenn Framsóknarflokksins eru sammála þessum skoðunum. Það sætir furðu, svo ekki sé meira sagt, að þessir ágætu þingmenn skuli samt sem áður greiða atkvæði með afnámi skattsins, fara þannig gegn því sem þeir telja réttast og má kannski segja að fátt sé betra dæmi um að flokkarnir hafa ansi sterk tök á sínum mönnum en einmitt það.

Ég er þeirrar skoðunar að sykur, áfengi og tóbak séu skaðvaldar. Varðandi áfengi og tóbak hafa menn farið þá leið að beita neyslustýringu með því að hækka gjöldin á þeim. Menn geta verið með því eða á móti en það hefur virkað. Er ekki hv. þingmaður sammála um að það væri þá rökrétt (Forseti hringir.) miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir um skaðsemi sykurneyslu (Forseti hringir.) að fara sömu leið? Þetta kalla menn auðvitað forræðishyggju, (Forseti hringir.) en það má hafa misjafnar skoðanir á því.