144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:32]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur margt áhugavert komið fram í þessari umræðu sem mig langar að koma inn á, en áður en ég byrja á því að fara í helstu efnisatriði þessa máls verð ég að nefna að í þessu frumvarpi eru þó nokkrar birtingarmyndir þess ófriðar sem núverandi ríkisstjórn skapar með gjörðum sínum í samfélaginu. Hluti af þeirri óvissu sem hefur verið sköpuð í samfélaginu veldur því að við sjáum mun minni vöxt í efnahagslífinu en spár gerðu ráð fyrir.

Ég fór yfir það hér áðan undir liðnum störf þingsins að blikur eru á lofti hvað varðar íslenskt efnahagslíf. Við sjáum að á fyrstu níu mánuðum þessa árs var hagvöxtur verulega undir spám, þ.e. 0,5% á fyrstu níu mánuðum ársins. Við sjáum samdrátt á tveimur ársfjórðungum á þessu ári. Þetta hlýtur að vera stjórnarmeirihlutanum mikið áhyggjuefni. Ég rek þetta til þess að í máli á eftir máli hefur verið vakin upp óvissa í samfélaginu um hvert ríkisstjórnin er að fara með okkur.

Ég get nefnt nokkur dæmi um það. Þegar menn taka til dæmis ákvarðanir um að fara í skuldaleiðréttingar og taka 80 milljarða út úr ríkissjóði þá er óvissa um hvernig það verður fjármagnað. Það er líka óvissa um það með hvaða hætti menn ætla að koma í veg fyrir það til lengri tíma að verðbólgan fari aftur af stað og hafi sömu áhrif og gerðist hér í hruninu, þ.e. að verðtryggð lán hækki upp úr öllu valdi með þeim afleiðingum að menn telji sig þurfa að fara aftur í leiðréttingar. Getur það gerst? (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Hér er hvert málið á fætur öðru en við höfum ekki hugmynd um hvert menn ætla að stefna varðandi gjaldmiðilinn, við höfum enga hugmynd um það. Okkur er ekki einu sinni gefin vísbending um hvaða áhuga menn hafa nema að þeir ætla að bíða og sjá til og vera ekkert mikið að rugga bátnum. Viðbrögðin eru þau að menn treysta ekki þeim leiðangri og þess vegna sjáum við hagtölur eins og þær sem við sjáum núna.

Ég þarf að nefna fleiri atriði. Þessi ríkisstjórn steig fram í aðdraganda kosninga og kom með mjög hástemmd loforð um að það ætti að vera hægt að ná í mikla fjármuni frá svokölluðum hrægömmum sem menn ætluðu að herja á á þessu kjörtímabili og sækja þangað mikið fé sem hægt væri að nýta hér til þjóðþrifaverka. Ekkert sem okkur hefur birst hvað varðar umgengni ríkisstjórnarinnar við hina svokölluðu hrægamma gefur tilefni til að ætla að það sé innstæða fyrir þeim orðum sem menn héldu á lofti í aðdraganda kosninga, ekki neitt. Þetta er líka liður í því. Menn sjá nú að orð og efndir fara ekki saman hjá þessari ríkisstjórn í máli eftir máli eftir máli. Þess vegna er þetta vantraust komið upp og þess vegna er óvissan sem birtist í því að menn sjá hér minni vöxt en þeir gerðu ráð fyrir og meira að segja samdrátt á tveimur ársfjórðungum sem er mjög alvarlegt mál fyrir okkur.

Það er ekki bara óvissa sem er verið að skapa heldur er líka verið að skapa mikinn ófrið aftur og aftur. Við sáum það til dæmis í ákvörðunum meiri hluta atvinnuveganefndar hvað varðaði rammaáætlun að tekið var ferli sem hafði verið hannað af Alþingi sjálfu og tendrað undir því ófriðarbál. Við sjáum þetta í fleiri þáttum eins og því að þvert á vilja fólksins í landinu og þvert á það sem við sjáum hvað varðar hagnað hjá sjávarútvegsfyrirtækjum þá ákvað ríkisstjórnin að það væri mesta þjóðþrifaverkið sem hún hefði á sínu borði eftir kosningar að drífa í því að lækka auðlindagjöldin. Það var fyrsta verkið. Þá sáu menn fyrst á spilin, hvaða forgangsröð ríkisstjórnin hefði. Þá byrjuðu menn að kynda undir þann ófrið sem við upplifum núna og birtist okkur víða í samfélaginu. Það er mikill ófriður á vinnumarkaði sem birtist í þeirri kjaradeilu sem læknar standa núna í við ríkið, sem er enn ein óvissan.

Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki getað sagt okkur hvernig hún ætlar að byggja upp heilbrigðiskerfið. Það hefur verið kallað eftir því en ekki hefur verið hægt að svara því. Menn bera það fyrir sig að það sé svo erfitt og snúið að fjármagna þetta allt saman en þeir velja síðan að taka það sem kemur umfram inn í ríkissjóð á þessu ári og setja það í skuldalækkanir til að flýta þeim. Þetta er ekki trúverðugt. Það er hægt að fjármagna þetta en þetta snýst um að menn hafa ákveðið að nota fjármagnið í annað og þá eiga þeir bara að stíga fram og segja það. Allt þetta kyndir undir ófrið í samfélaginu.

Sama má segja líka um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að framlengja ekki auðlegðarskattinn en leggja síðan höfuðáherslu á að hækka virðisaukaskatt á matvæli. Þetta undirstrikar enn og aftur þá forgangsröðun sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir standa fyrir. Á sama tíma taka menn ákvörðun um að afnema sykurskatt. Það er slíkt þjóðþrifamál og svo mikilvægt verkefni að hækka þarf virðisaukaskatt á önnur matvæli til að fjármagna það. Það er einfaldlega þannig. Menn eru að fjármagna afnám sykurskattsins með því að hækka virðisaukaskatt á matvæli. Þetta er forgangsröðun sem mér hugnast ekki. Ég held að menn sjái ekki alveg fyrir endann á afleiðingunum af þessu og þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar. Þetta mun leiða af sér áframhaldandi gliðnun í samfélaginu milli þeirra sem eiga meira og þeirra sem eiga minnst. Það er sá leiðangur sem ríkisstjórnin lagði upp í og hvert einasta skref sem stigið hefur verið styður þá þróun — hvert einasta skref. Það er eitt af því sem við sjáum líka í þessu frumvarpi.

Það er nefnilega ekki hægt að segja að þeir sem þurfa að nota hlutfallslega mest af tekjum sínum í nauðsynjavörur verði ekki fyrir höggi út af þessu frumvarpi. Hverjir eru það? Það eru þeir sem lægstar hafa tekjurnar. Svo segja menn að þetta sé gert í nafni einhverrar einföldunar. Það er engin einföldun í því að hækka prósentuhlutfall á virðisaukaskatti úr 7% í 12% og síðan 11% eins og menn ætla að gera núna. Það er engin einföldun í því. Það er heldur engin einföldun í því fyrir þá sem minnst hafa í samfélagi okkar að þurfa að borga hærra verð fyrir mat og nauðsynjavörur, þvert á móti. Eina einföldunin er kannski sú að þeir sem meira hafa þurfa að borga minni skatta af svokölluðum lúxusvarningi í efra þrepinu. (Gripið fram í: Hver er lúxusvarningurinn?) Þess vegna erum við mikið á móti þessari hækkun á matarskattinum.

Ég er vægast sagt mjög undrandi á því að menn ætli að keyra málið áfram og að Framsóknarflokkurinn láti beygja sig í duftið eins og raun ber vitni og komi síðan sigri hrósandi eftir einhvers konar samningaviðræður við Sjálfstæðisflokkinn um að þeir hafi náð að lækka þetta um heilt prósentustig. Svei mér þá, ekki hefði ég fagnað eftir slíka samninga.

Það sem vekur manni líka ugg er að það liggur í loftinu að þessi hækkun á neðra þrepinu sé fyrsta skrefið. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kinkar kolli úti í sal því til staðfestingar. Það er líka áhyggjuefni. Um hvað voru menn þá að semja þegar þeir sömdu sig frá 12% niður í 11% milli umræðna? Hvaða leikaraskapur er það ef ríkisstjórnin er með þá áætlun að hækka neðra þrep virðisaukaskattsins meira en hér er gert ráð fyrir? Menn eiga að koma hreint fram og segja það.

Annað sem hangir á spýtunni er að það er ekki eingöngu verið að hækka virðisaukaskatt á matvæli heldur er líka verið að hækka virðisaukaskatt á bækur. Mönnum hefur verið tíðrætt um svokallaða verðteygni í þessari umræðu í dag og segja að hún sé ekki mikil þegar kemur að matvælum. Það er rétt því að það er nauðsynjavara. Hins vegar eru menn mjög viðkvæmir fyrir breytingum á hækkun á verði varnings eins og bóka. Bækur eru nú þegar mjög dýrar hér á landi. Menn hafa lýst áhyggjum af því að það geti riðið bóksölu að fullu ef skattar á bækur verða hækkaðir eins og hér er gert ráð fyrir.

Ég var líka undrandi á því að hæstv. menntamálaráðherra segði í orðaskiptum við mig í þessum stól fyrr í haust að niðurstaðan af hækkun bókaskatts gæti haft þau áhrif að koma þyrfti með einhvers konar mótvægisaðgerð til að mæta hækkuninni. Ég hef enga slíka aðgerð séð og ég hef ekki heyrt í hæstv. menntamálaráðherra um þetta mál síðan við áttum þessi orðaskipti. Hann er hlaupinn í felur af því að menn hafa ákveðið og halda því enn til streitu að það sé svo mikilvægt að afnema sykurskattinn, að það þurfi að halda þessari virðisaukaskattshækkun til streitu út af því og sömuleiðis til að menn geti staðið við þá ákvörðun að framlengja ekki auðlegðarskattinn því að sú ákvörðun verður fjármögnuð með þessari hækkun.

Virðulegi forseti. Við þingmenn fengum sendan ágætistölvupóst frá Bryndísi Loftsdóttur, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bókaútgefanda, sem sendir okkur þann póst fyrr í haust þar sem hún hafði tekið sama ágætt yfirlit yfir það hvernig bækur eru skattlagðar í Evrópu. Það er algerlega ljóst að eftir þessa breytingu verður sitjandi ríkisstjórn búin að skattleggja okkur upp í fimmta sæti yfir mestu skattlagningu á bækur í Evrópu. Það getur vel verið að það sé þessari ríkisstjórn eitthvert kappsmál og metnaðarmál að við séum hér almennt með hærri skatta á bókum en gengur og gerist. Reyndar held ég að við verðum líka komin í einhver efstu sætanna hvað varðar skattlagningu á matvæli eftir þessa breytingu. Mismunandi eru nú kappsmálin. Það er ljóst að ríkisstjórnin er ansi skattlagningarglöð í verki miðað við hvernig hún á það til að tala. Það virðist ekki hanga saman hvað menn segja og hvað menn síðan gera, hvorki í þessu né öðru eins og ég hef áður farið yfir.

Það sem mér finnst líka áhugavert í bréfinu sem við fengum út af boðuðum breytingum á bókaskatti er að í Noregi er enginn virðisaukaskattur á bókum. Gefin var út skýrsla frá Oslo Economics sem sýndi fram á að áhrif skatts á bókakaup væru gríðarlega mikil og neikvæð. Það er ekki eins og menn hafi ekki haft þessar upplýsingar fyrir framan sig þegar þeir tóku ákvarðanir um að hækka virðisaukaskatt á bækur. Þetta eru ekki bara afþreyingarbækur, eins og komið hefur fram hér áður, þetta eru fræðibækur, skólabækur, barnabækur, þetta eru alls konar bækur. Það er því verið að þyngja mjög róðurinn hjá námsmönnum sem hafa svo sem ekki annan kost en að kaupa þær bækur sem þeim eru settar fyrir.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég fjalla aðeins um sykurskattinn. Mér er það algerlega óskiljanlegt hvers vegna ríkisstjórnin leggur svo mikið kapp á að afnema sykurskattinn að hún þurfi að hækka aðra neysluvöru eins og matvæli til að fjármagna það. Það er sama hvaða stjórnarþingmaður hefur staðið hér upp og reynt að tala fyrir þessu, röksemdafærslan gengur ekki upp. Menn tala um þetta eins og það sé einhvers konar prinsipp þess efnis að þeir vilji ekki stýra neyslu fólks. Gott og vel. Hvað varð þá um að eðlilegt væri að þeir sem neyta einhvers varnings eða vöru sem er til sölu og hefur íþyngjandi áhrif á þriðja aðila, eins og klárlega er í þessu tilfelli þegar kemur að sykri, greiddu sérstakan skatt? Þetta er eins og mengunarskattar. Menn greiða mengunarskatta af því að þeir vita að mengun hefur neikvæð áhrif á þriðja aðila. Þetta er ekkert öðruvísi því að það er vitað að sykur veldur offitu og álagi á heilbrigðiskerfið. Mér er það því algerlega óskiljanlegt af hverju menn eru ekki til í að halda þessum skatti og leggja svo mikið kapp á að afnema hann að þeir eru til í að fjármagna það með hækkun á matvöru. Ég hef ekki heyrt nægjanlega góð rök fyrir þessu og mundi gjarnan vilja heyra önnur rök en þau að þetta snúist um eitthvert prinsipp eins og að vera ekki með neyslustýringu vegna þess að menn eru með neyslustýringu víða. Hvað með áfengi og tóbak? Það er neyslustýring á því. Menn eru með alls kyns gjöld og hægri flokkarnir sem eru nú við stjórnvölinn hafa blygðunarlaust verið til í að hækka þau. Hvers vegna er slíkt kapp lagt á að afnema sykurskattinn? Þetta er býsna öruggur skattur. Hann skilar nokkuð öruggum tekjum framan af. Hann hefur mest áhrif á yngstu aldurshópana en síður þá eldri þannig að framan af er þetta býsna öruggur tekjustofn þangað til þeir sem yngri eru hafa hugsanlega valið sig í aðrar áttir en að sykrinum vegna verðlags.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég nefna það enn og aftur að ég tel að þegar upplýsingar um blikur á lofti í íslensku efnahagslífi liggja fyrir þá eigi stjórnarmeirihlutinn að taka það mjög alvarlega, hann eigi að líta á málið sem svo að hann hafi ákveðið tækifæri núna, það er að nálgast mitt kjörtímabil, til að reyna að setja plástra á sárin sem hann hefur valdið hér á undanförnu einu og hálfu ári, reyna að skapa frið í samfélaginu um stærstu málin en fara ekki alltaf þannig í málin að friðurinn sé slitinn í sundur eins og við höfum séð mörg dæmi um. Sömuleiðis er ekki hægt lengur að halda áfram að taka mikla fjármuni út úr ríkissjóði og setja til dæmis í skuldalækkanir heimilanna án þess að svara því hvernig koma eigi gjaldmiðilsmálum fyrir til lengri tíma. Ef menn gera ekki neitt og halda áfram við óbreytt ástand þá munum við sjá það sama gerast aftur. Hvað mun það kosta ríkissjóð þá? Hvaða væntingar er búið að skapa núna? Allt þetta leggst á eitt við að skapa þá óvissu sem ég fór yfir í upphafi máls míns og veldur þeim neikvæðu hagtölum sem við sjáum í bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands.

Virðulegi forseti. Ég skora á hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans sem hér eru að ýta við fólki sínu og kalla eftir því með okkur í stjórnarandstöðunni að þessari óvissu verði eytt og sett verði upp einhver raunhæf áætlun um þá peningastefnu sem við ætlum að reka hér til lengri tíma. Ég legg líka til að ófriðnum sem skapaður hefur verið í gegnum ákvarðanatöku um breytingar á skattkerfinu verði eytt og að menn hætti að láta þá tekjulægstu ýmist sitja eftir eða taka við aukinni skattbyrði út af kappi þessarar ríkisstjórnar við að lækka álögur á þá sem mest hafa og að menn hætti við að lækka skatt eins og sykurskattinn sem er að mínu mati fullkomlega réttlætanlegt að leggja á vegna þeirra áhrifa og þess álags sem hann hefur á heilbrigðiskerfið sem allir skattgreiðendur greiða á endanum fyrir. Það er því ekkert óeðlilegt við að sykurskatturinn fái að halda sér og tekjurnar af honum séu nýttar í þann stóra pott af fjármagni sem heilbrigðiskerfið þarf.