144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:55]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég tala um lúxusvarning veit ég ekki hvað er snúið við það. Dýrir skartgripir, ég flokka það undir lúxusvarning. Rándýr klæðnaður, óþarflega dýr klæðnaður, ég flokka það undir lúxusvarning. Það er kannski sá varningur sem við þurfum síst á að halda til að halda lífi, það mundi ég kalla lúxusvarning. Það er eitthvað sem fólk leyfir sér ef það hefur extra fjármuni til umráða umfram það sem það þarf til daglegra nota til að halda lífi og sjá sómasamlega fyrir sér og sínum. Með öðrum orðum er það varningur sem venjulegt fólk hefur ekki efni á að kaupa sér. Það er það sem ég á við þegar ég tala um lúxusvarning. Ég veit ekki hvað er snúið við þá skilgreiningu. Ég hélt að við værum öll með það á hreinu hvað lúxusvarningur er.

Hv. þingmaður talar um að auðlegðarskatturinn sé eingöngu lagður á í tveimur löndum. Það getur vel verið rétt. Engu að síður finnst mér sá skattur réttlátari en að halda áfram að þyngja byrðar þeirra sem minnst hafa. Hvað eru mörg ríki í Evrópu, ég fór yfir það áðan, sem eru með eins háan matarskatt og við verðum með eftir þessa breytingu? Kannski hv. þingmaður geti líka farið yfir það. Hvað eru mörg ríki í Bandaríkjunum? Ég er ekki einu sinni viss um að nauðsynjavara eins og matur sé með söluskatt í Bandaríkjunum. Við erum að velja, menn eru að taka ákvörðun um þetta og ég fór yfir það með bókaskattinn áðan, við verðum í fimmta sæti yfir mestu skattbyrði á bækur eftir að þessi breyting gengur í gegn. Það sem menn velja að gera er að færa skattlagninguna frá auðlegðarskatti, frá sykri yfir á nauðsynjavöru sem mun leggjast þyngst á þá sem minnst hafa. Það er einfalt val og ég held að menn ættu ekki að vera með neina útúrsnúninga um það heldur koma hreint fram með að þetta er forgangsröðunin, um þetta snýst ákvörðunin.